top of page

TÓNHYLUR

Tónhylur er tónlistarklasi í Árbæ. Í Tónhyl er blanda af starfandi tónlistarfólki og nýliðum en hugmyndin með því er að byggja upp samfélag þar sem þeir reynslumeiri miðla reynslu sinni og þekkingu til þeirra sem eru að taka sín fyrstu skref. Tónlistarfélagið leggur áherslu á að efla ungt tónlistarfólk, veita þeim öflugt bakland og styðja það í sinni sköpun. Það gerir félagið m.a. með því að útvega fyrsta flokks aðstöðu, halda viðburði og bjóða upp á öfluga fræðslu.

TÓNLISTARFÉLAG ÁRBÆJAR

Saga félagsins

Sumarið 2018 var Tónlistarfélag Árbæjar stofnað af fimm einstaklingum sem áttu allir það sameiginlegt að hafa starfað lengi með ungu fólki og í tónlist. Lítið hafði farið fyrir tónlistarviðburðum í Árbænum, þar sem þeir störfuðu og því var ákveðið að stofna félag til að halda utan um stóra útitónleika. Markmið tónleikana var að kynna til leiks ungt tónlistarfólk í Árbænum í bland við þekktara tónlistarfólk í Reykjavík. Tónleikarnir hlutu nafnið Stíflan og voru haldnir í frábæru veðri fyrir ofan Árbæjarlaug með frábæru útsýni yfir allan Elliðaárdal. Á tónleikana mættu um 2.500 manns sem var talsvert meiri fjöldi en búist var við. Því var ljóst að mikill áhugi var í hverfinu fyrir metnaðarfullum tónlistarviðburðum. 

Eftir tónleikana var ákveðið að setja niður formleg markmið félagsins en þau eru:

Að efla unga lagahöfunda, bjóða upp á vandaða fræðslu og byggja upp fyrsta flokks aðstöðu fyrir tónlistarfólk. 

Mikill skortur var á aðstöðu í Reykjavík til tónlistariðkunnar og því var ákveðið að fara þess á leit við Reykjavíkurborg að koma í samstarf við að útvega aðstöðu fyrir ungt tónlistarfólk.  Hugmyndin var að bjóða upp á ódýrt æfingahúsnæði og stúdíóaðstöðu fyrir ungt fólk. Reykjavíkurborg tók vel í þá hugmynd og gerði þriggja ára samning við félagið. Samningurinn fólst í því að Reykjavíkurborg myndi greiða hluta leigukostnaðar á nýju húsnæði í Ártúninu. Það húsnæði fékk nafnið Tónhylur.

Tónhylur er tónlistarklasi þar sem lögð er áhersla á ungt tónlistarfólk. Þar er fyrsta flokks aðstaða til að taka upp, skapa og æfa tónlist. Húsnæðið var byggt upp af sjálfboðaliðum á öllum aldri og er um 1500 fermetrar. Hér æfa um 30 hljómsveitir og eru öll hljóðver full af ungu fólki sem er að semja tónlist.  

 

Hugmyndafræðin á bak við Tónhyl er að þeir reynsluminni geti lært af þeim reynslumeiri í skapandi umhverfi. Verið er að þróa svokallað mentorkerfi þar sem reynslumikið tónlistarfólk fær ódýra aðstöðu gegn því að taka þátt í félaginu með því til dæmis að aðstoða þá reynsluminni. Einnig er mikið lagt upp úr því að búa til öflugt bakland fyrir tónlistarfólk og gefa einstaklingum svigrúm til að æfa og prófa sig áfram í öruggum aðstæðum.  

Árið 2020 varð félagið þriggja ára. Stöðugt er verið að prófa ólíkar leiðir til að efla tónlistarfólk og er stefnan að byrja með öflugt fræðslustarf á haustdögum. Það er ljóst að mikil þörf er fyrir svona starfsemi og hefur eftirspurnin farið framar vonum. Í dag starfa þarna efnilegasta tónlistarfólk landsins í bland við nýliða sem fá tækifæri til að læra og vera innan um öflugar fyrirmyndir í tónlist. Stefna félagsins er að halda áfram að vaxa og leita stöðugt leiða til að efla tónlistarlíf á Íslandi. 

Stjórn félagsins 2024

Kristján Sturla Bjarnason - formaður

Brynjar Ingi Unnsteinsson - varaformaður

Guðfinna Birta Valgeirsdóttir - meðstjórnandi

Pétur Finnbogason - varamaður

Ásgrímur Geir Logason - varamaður

Andri Már Magnason - varamaður

Akademían2.0-12.jpg

Tónhylur nýtur stuðnings Reykjavikurborgar.

Reykjavik.png
bottom of page